Framúrstefnuhugmynd Sjávarútvegsráðstefnunnar 2015

„Svifaldan” verðlaunagripurinn fyrir Framúrstefnuhugmynd Sjávarútvegsráðstefnunnar 2015 var nú veitt í fimmta sinn, en markmiðið er að efla umræður og hvetja til nýrrar hugsunar með framsæknum og frumlegum hugmyndum. Svifaldan er gefin af TM, en jafnframt var veitt verðlaunafé og viðurkenningar til þeirra sem standa að þremur bestu hugmyndunum.

Snorri Hreggviðsson, Margildi ehf. hlaut fyrstu verðlaun í samkeppninni Framúrstefnuhugmynd Sjávarútvegsráðstefnunnar 2015. Hugmyndin er að framleiða Marlýsi, lýsi úr markríl, síld og loðnu til manneldis. Margildi ehf. hefur þróað nýja og einstaka vinnsluaðferð, svokallaða hraðkaldhreinsun, sem gerir kleift að kaldhreinsa lýsi úr uppsjávartegundunum. Fram til þessa hefur ekki verið unnt að kaldhreinsa á skilvirkan hátt og fullhreinsa fyrrnefnt lýsi til manneldis vegna mikils magns mettaðra og langra einómettaðra fitusýra s.k. steríns í lýsinu.

Á myndinni er Snorri Hreggviðsson til vinstri og Magnús Valgeir Gíslason til hægri.

Önnur verðlaun fékk Katla Hrund Björnsdóttir, nemi við Háskólann á Akureyri fyrir hugmyndina ljómandi krókar. Hugmyndin er að setja flúr- og fosfórljómandi (sjálflýsandi) málningu á öngla sem notaðir er til að laða að fiskinn við veiðar.

Þriðju verðlaun fékk Jónas Hallur Finnbogason fyrir hugmyndina ITS uppþíðingu (Individual Thawing System ) sem gengur út á að losa í sundur blokkfrystan heilan fiski snemma í ferlinu og þýða upp staka fiska. Nánari upplýsinar um Framúrstefnuhugmyndir Sjávarútvegsráðstefnunnar 2015 er að finna í ráðstefnuhefti Sjávarútvegsráðstefnunnar.