Sjávarútvegsráðstefnan 2014 – Að lokinni ráðstefnu

Í þessari frétt er tekið fyrir erindi á Sjávarútvegsráðstefnunni, fjöldi þátttakenda, Facebook vef ráðstefnunnar, stjórn Sjávarútvegsráðstefnunnar og fleira.

 

Erindi á netinu

Nú er hægt að sækja öll erindi sem haldin voru á Sjávarútvegsráðstefnunni 2014 á vef ráðstefnunnar, HÉR (sjá einnig Dagskrá 2014 hér til hægri). Almennt voru ráðstefnugestir ánægðir með ráðstefnuna og þau erindi sem flutt voru.

Þátttakendur

Skráðir þátttakendur voru rúmlega 560 og hafa aldrei verið fleiri. Mestur fjöldi þátttakenda í ráðstefnusölum var um 400 manns en margir sóttu aðeins hluta ráðstefnunnar.

Ljósmyndir

Á þessari ráðstefnu eins og á þeim fyrri voru teknar fjöldi ljósmynda en þær er hægt að sækja til vinstri Myndir frá ráðstefnu 2014. Vegna tæknilegra vankant eru myndirnar ekki komnar á vefinn – en koma vonandi fljótlega.

Fjöldi kvenna

Sú gagnrýni hefur komið upp að á Sjávarútvegsráðstefnunni væru kvenmenn of lítið áberandi.  Það er rétt gagnrýni og hefur verið unnið í því að fjölga kvenmönnum.  Á undanförnum árum hefur þeim fjölgað og voru konur tæplega 20% fyrirlesara á Sjávarútvegsráðstefnunni 2014. Kvenmönnum hefur einnig fjölgað í stjórn og eru nú fjórir af sex stjórnarmönnum konur. Jafnframt má benda á af nemum frá Háskólanum á Akureyri sem aðstoða í ráðstefnusölum voru kvenmenn í meirihluta (sjá mynd).

Ungir fyrirlesarar

Það hefur oft einkennt ráðstefnur innan sjávarútvegs að ,,eldri karlmenn“ hafa verið áberandi sem fyrirlesarar. Forsvarsmenn Sjávarútvegsráðstefnunnar hafa unnið að því að ungir fyrirlesarar fái einnig tækifæri. Að þessu sinni voru nokkrir fyrirlesarar sem annað hvort eru í námi eða hafa nýlokið sýnu námi og má t.d. nefna; Hrönn Egilsdóttir, Magneu G. Margeirsdóttir, Sigurð Stein Einarsson og Bjarka Vigfússon.

Stjórn Sjávarútvegsráðstefnunnar

Í stjórn Sjávarútvegsráðstefnunnar koma nú þrír nýir, en það eru; Alda Gylfadóttir, Björn Brimar Hákonarson og Sara Lind.  Þeir sem sitja áfram annað árið í stjórn Sjávarútvegsráðstefnunnar eru: Bylgja Hauksdóttir, Guðbrandur Sigurðsson og Rannveig Björnsdóttir.

Þeir sem ganga úr stjórn eru; Erla Kristinsdóttir, Gísli Gíslason og Grímur Valdimarsson. Þeim er þakkað góð störf.

Facebook

Nemar Háskólans á Akureyri sjá um Facebook síðu fyrir Sjávarútvegsráðstefnuna þar sem er að finna fréttir og ljósmyndir af ráðstefnunni.

https://www.facebook.com/sjavarutvegsradstefnan